
Ný stjórn tekin við í Mæðrastyrksnefnd Akraness
Á aðalfundi í Mæðrastyrksnefnd Akraness í gær var ný stjórn kosin. Í henni sitja Ingunn Hallgrímsdóttir, Sandra Björk, Herdís Jónsdóttir, Rósa Sigurbjörnsdóttir og Sigrún Ríkharðsdóttir sem jafnframt er formaður. Tekur hún við keflinu af Maríu Ólafsdóttir sem stýrt hefur nefndinni undanfarin ár.
Að sögn kvennanna í nýrri stórn verður fyrsta verkefni að reyna að finna varanlegt húsnæði fyrir starfsemina, en allt frá því nefndin hafði aðsetur í gamla Pósthúsinu hefur starfsemin verið á hrakhólum. Það sé mjög hamlandi til dæmis vegna reglulegra matarúthlutana að hafa ekki geymslupláss fyrir mat. „Þörfin er áfram til staðar fyrir okkar starf og raunverulega hefur hún verið að aukast. Það eru margar fjölskyldur og einstaklingar sem búa við neyð og þurfa að geta leitað á náðir hjálparsamtaka eins og okkar. Því skorum við á fyrirtæki og þá sem aflögu eru færir að styrkja starf Mæðrastyrksnefndar,“ segir Sigrún Ríkharðsdóttir nýr formaður í samtali við Skessuhorn. Minnir hún á styrktarreikning Mæðrastyrksnefndar sem er: Kt. 411276-0829 og banki: 0552-14-402048.
María fráfarandi formaður vill koma á framfæri þakklæti nefndarinnar til RKÍ á Akranesi og Úrsulu Árnadóttur sem reynst hefur nefndinni vel á undanförnum árum, einkum eftir að Mæðrastyrksnefnd hafði ekki í önnur hús að venda með fundi sína og annað.
Loks má geta þess að Páskaúthlutun Mæðrastyrksnefndar Akraness fer fram fimmtudaginn 10. apríl. Þeir sem sóttu um fyrir síðustu jól og ætla að sækja um núna þurfa ekki að skila inn gögnum en sækja um á netfanginu msnakranes@gmail.com eða í síma 859-3000 dagana 31. mars til 4. apríl frá kl. 12-13.