Fréttir
Frá Hvanneyri. Ljósm. mm

Í undirbúningi er að hefja dýralæknanám á Hvanneyri

Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði og Háskólinn á Hólum undirbúa nú nám í dýralækningum hér á landi. Verður það gert í samstarfi við Lífvísindaháskólann í Varsjá í Póllandi. Fyrirhugað er að fyrstu tvö ár námsins verði kennd á Íslandi, en síðan fari nemendur til SGGW í Póllandi og ljúki þar fullgildu prófi í dýralækningum á þremur árum. Á síðari stigum námsins verður boðið upp á hluta af verklega náminu á Íslandi. „Nám í dýralækningum hefur ekki verið í boði á Íslandi, en oft hafa nemendur tekið nám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands, eða skyldum greinum svo sem líffræði við Háskóla Íslands og fengið það nám metið inn í dýralæknanám erlendis,“ segir Ragnheiður I Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri í samtali við Skessuhorn.