Fréttir
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra á kynningarfundi um breytingu á lögum um veiðigjald.

Veiðigjald mun taka mið af verði á fiskmörkuðum

Í Samráðsgátt stjórnvalda er komið frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um breytingu á lögum um veiðigjald. Frumvarpið var unnið í samvinnu tveggja ráðuneyta, en auk Hönnu Katrínar kynnti Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra frumvarpið fyrr i dag. Fram kom að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á réttlát auðlindagjöld sem renna skuli að hluta til nærsamfélagsins. „Við vinnu við endurskoðun á veiðigjöldum var niðurstaðan sú að núverandi aðferð endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti nytjastofna og er frumvarpið lagt fram til að bæta þar úr. Ekki er um að ræða breytingar á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem verið hefur við lýði á Íslandsmiðum undanfarna áratugi, heldur þarfa leiðréttingu. Við gerð frumvarpsins kom í ljós að fiskverð í reiknistofni hefur verið vanmetinn. Stærstur hluti viðskipta með veiddan fisk fer frá útgerð til vinnslu sem er í eigu sömu aðila og eru því um bein viðskipti að ræða. Verðmyndun þessara viðskipta hefur ekki verið í samræmi við verðmyndun á mörkuðum,“ segir í kynningu ráðherranna.