Fréttir
Bjarnalaug á Akranesi, eina innisundlaugin í bæjarfélaginu, var tekin í notkun og afhent bænum skuldlaus að gjöf frá bæjarbúum, við athöfn sem fór fram á Sjómannadaginn 4. júní 1944. Meðfylgjandi er mynd frá móti í lauginni fyrir nokkrum árum.

Skora á bæjaryfirvöld að flýta byggingu nýrrar innisundlaugar

Á aðalfundi í Sundfélagi Akraness, sem haldinn var síðastliðinn mánudag, var samþykkt ályktun vegna nýrrar innisundlaugar. Í henni skorar félagið á bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að setja hönnun og framkvæmdir við nýja innisundlaug strax í skýran forgang í áætlunum sveitarfélagsins og að staðið verði við loforð um tímasetningar sem gefin hafa verið. Fram kemur að ný sundlaug hafi verið á dagskrá bæjaryfirvalda á Akranesi í yfir 30 ár og á því tímabili hefur framkvæmdum ítrekað verið frestað þrátt fyrir loforð um annað. „Ný sundlaug varðar ekki bara iðkendur sundfélagsins og afreksstarf þess, heldur er einnig um að ræða mikilvæga þjónustu við alla íbúa bæjarfélagsins. Sundíþróttin krefst góðrar æfingaaðstöðu og fyrir bættri aðstöðu höfum við í Sundfélagi Akraness barist árum saman,“ segir í ályktun fundar SA.

Skora á bæjaryfirvöld að flýta byggingu nýrrar innisundlaugar - Skessuhorn