Fréttir
Svipmynd af ferð björgunarsveita í nótt. Eins og sjá má er talsverður snjór á hálendinu. Ljósm. Landsbjörg.

Komu vélsleðamönnum við Langjökul til aðstoðar

Um klukkan eitt í nótt bárust Neyðarlínunni neyðarboð frá Langjökli, skammt frá Klakki. Við nánari eftirgrennslan voru þar tveir menn á ferð á vélsleðum og höfðu þeir lent í talsverðri festu. Þeir voru vel búnir og engin hætta var á ferðum en óskuðu þeir aðstoðar björgunarsveita við að losa sleða sína. Björgunarsveitir af Suðurlandi voru boðaðar út og þá voru björgunarsveitir í Borgarfirði beðnar um að fara inn á Kaldadal. Þar með væru bjargir á leið á staðinn bæði að vestan og sunnan. Ferð björgunarsveita gekk ágætlega inn að jökli og klukkan þrjú í nótt komu fyrstu björgunarmenn, sem voru á vélsleðum, á vettvang. Vel gekk að aðstoða við að losa föstu sleðana og þáðu sleðamennirnir fylgd til byggða, þar sem bensínbirgðir voru orðnar af skornum skammti. Björgunarsveitir voru svo að skila sér til baka í bækistöðvar á sjöunda tímanum í morgun.