Íþróttir
Sigurvegarar að mótslokum. F.v. Ólafur Sigvaldason, Gísli Þórðarson, Reynir Helgason, Frímann Stefánsson, Magnús Sverrisson og Halldór Þorvaldsson. Ljósm. mm

Árlegt Borðeyrarmót í bridds var spilað um helgina

Á laugardaginn var árlegt mót í tvímenningi í bridds haldið í skólahúsinu á Borðeyri við Hrútafjörð. Færð og veður var með albesta móti miðað við árstíma og skartaði Hrútafjörðurinn sínu fegursta í síðvetrarblíðunni. Mót þetta hefur getið sér gott orð meðal spilara og er jafnan uppselt á það. Þátt í því eiga kvenfélagskonur á svæðinu sem laða á hverju ári fram eitthvað glæsilegasta veisluborð sem um getur. Að þessu sinni voru 27 pör skráð til leiks og spiluð 44 spil í tíu umferðum. Um mótsstjórn sáu Ingimundar tveir; Jónsson úr Borgarfirði og Sveinn Ingimundur Pálsson af Ströndum. Að mótslokum voru afhent útdráttarverðlaun og verðlaunapeningar fyrir þrjú efstu sætin.

Í efsta sæti með 62,9% skor urðu þeir Frímann Stefánsson og Reynir Helgason frá Akureyri. Í öðru sæti með 59,6% voru Magnús Sverrisson og Halldór Þorvaldsson úr Rvk. Í þriðja sæti voru svo þeir Gísli Þórðarson og Ólafur Sigvaldason með 56,7% skor og þar með efstir af vestlensku spilurunum.

Svipmynd af hluta hópsins undir lok móts, en þétt var setið í skólahúsinu á Borðeyri. Til vinstri er í raun verið að spila úrslitasetuna á borði eitt. Gísli Þórðarson og Ólafur Sigvaldason voru lengi vel í forystu á mótinu en eru þarna að spila við þá Frímann og Reyni sem höfðu betur og sigruðu að endingu. Ljósm. sip