Fréttir

Gin- og klaufaveiki greindist í Slóvakíu

Gin- og klaufaveiki hefur nú greinst á þremur búum í suðurhluta Slóvakíu, í þorpunum Medvedov, Narad og Baka. „Gripið hefur verið til umfangsmikilla varúðarráðstafana til að hindra dreifingu smitsins, bæði af hálfu slóvakískra yfirvalda og Evrópusambandsins. Öll klaufdýr á viðkomandi búum verða aflífuð og um 2000 nautgripir í nágrenni búanna verða bólusett. Bólusetningin er eingöngu til að draga úr útbreiðslu, aflífa þarf bólusett dýr síðar þar sem þau geta verið frískir smitberar,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun. Stofnunin vill ítreka áminningu til fólks sem ferðast til landa þar sem gin- og klaufaveiki er til staðar að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr og þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr, áður en komið er heim. Sérstaklega á þetta við fólk sem á sjálft dýr eða starfar í tengslum við dýr. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli.