
Brúnastaðir í Fljótum hljóta landbúnaðarverðlaunin 2025
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra afhenti í dag landbúnaðarverðlaunin fyrir árið 2025 til bændanna á Brúnastöðum í Fljótum í Skagafirði; Stefaníu Hjördísar Leifsdóttir og Jóhannesar Ríkarðssonar. Verðlaunin voru afhent á Búnaðarþingi sem nú stendur yfir. „Framlag Brúnastaða til íslensks landbúnaðar er fjölþætt og áhrifamikið,“ sagði ráðherra við afhendingu verðlaunanna. „Þau Stefanía og Jóhannes hafa ekki aðeins aukið fjölbreytni í matvælaframleiðslu heldur einnig verið fyrirmynd í umhverfisstefnu, samfélagslegri ábyrgð og nýsköpun. Með sterkri framtíðarsýn stefna þau á að halda áfram að þróa starfsemi sína í átt að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, með áherslu á að tengja landbúnað, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á einstakan hátt. Bændurnir á Brúnastöðum eru því verðugir handhafar landbúnaðarverðlauna atvinnuvegaráðuneytisins fyrir árið 2025.“