
Amma Andrea færir Mæðrastyrksnefnd páskaegg
Fyrr í dag afhenti Andrea Þ Björnsdóttir, Amma Andrea, Mæðrastyrksnefnd Akraness 135 Góupáskaegg að gjöf. Munu þau verða látin fylgja með páskaúthlutun nefndarinnar, sem að öðru leyti verður í formi úttektarkorta í matvöruverslunum. Andrea safnaði fyrir páskaeggjakaupunum með sölu á varningi í Bónus og öðrum styrkjum sem hún aflar. Þær María Ólafsdóttir og Ingunn Hallgrímsdóttir frá Mæðrastyrksnefnd tóku við gjöfinni.
Að sögn Maríu verður aðalfundur Mæðrastyrksnefndar haldinn í næstu viku. Stefnt er að úthlutun úttektarkorta fyrir páska, en upphæð á þeim mun fara eftir inneign nefndarinnar þegar að úthlutun kemur. María vill biðla til þeirra sem vilja leggja söfnuninni lið að styðja við nefndina. Styrktarreikningur Mæðrastyrksnefndar Akraness er: 0552-14-402048 og kennitalan 411276-0829.