Fréttir
Guðmundur Bjarki Halldórsson formaður og Guðbjörg Ólafsdóttir ritari í Vitanum, félagi áhugaljósmyndara á Akranesi. Ljósm. mm

Áhugaljósmyndafélagið Vitinn býður nýliða velkomna

Vitinn, félag áhugaljósmyndara á Akranesi fagnar um þessar mundir 15 ára afmæli sínu. Af því tilefni hefur verið boðað til almenns fundar í félaginu þar sem nýir félagar eru sérstaklega boðnir velkomnir. Fundurinn verður í Stúkuhúsinu í Görðum fimmtudaginn 27. mars klukkan 20. Sjö manna stjórn er í félaginu. Af þessu tilefni ræddi blaðamaður við Guðmund Bjarka Halldórsson formann og Guðbjörgu Ólafsdóttur ritara. Bæði eru þau sammála um að félagsskapurinn sé skemmtilegur og gefandi. Félagsmenn eru í dag um 50 og koma flestir frá Akranesi en einnig frá nágranna byggðarlögum og nokkrir af höfuðborgarsvæðinu. Nú eru allir sem áhuga hafa á ljósmyndum hvattir til að mæta á nýliðafund og kynna sér starfið.

„Okkur vantar að fjölga í hópnum og yngja hann kannski dálítið upp um leið. Næsti félagsfundur verður því sérstakur nýliðafundur. Einu skilyrðin fyrir inngöngu í félagið er að hafa áhuga fyrir ljósmyndum, hvort sem það er myndataka á síma eða með myndavélum. Myndavélar í símum eru í dag það þróuð og góð tæki að það er hægt að taka frábærar myndir á þá. Í félagi eins og okkar erum við til dæmis að ræða mynduppbyggingu, spá í ljós og bara um allt sem snertir áhugamálið. Við erum fyrst og fremst að koma saman til að ræða við jafningja um áhugamálið okkar. Á nýliðafundinum munum við ræða við fólk og kalla eftir ábendingum um hvað það hefur áhuga á að gera á vettvangi félagsins.“

Nokkrir úr félaginu vopnaðir myndavélum staddir í haustlitaferð á Þingvöllum í október 2023.

Þau Bjarki og Guðbjörg segja að félagið standi fyrir æfingum og fari í ljósmyndaferðir af og til. Síðast var farið í haustlitaferð á Þingvelli, áður á Reykjanes og Snæfellsnes svo dæmi séu tekin. Nefndir í félaginu er ferðanefnd og sýningarnefnd auk stjórnar sem skipuleggur starfið. „Við eigum svo ýmsan búnaði svo sem stúdíóljós, skjástilli, microstilli fyrir linsur og sjónvarp til að sýna ljósmyndir.“ Ljósmyndafélagið var upphaflega með aðstöðu í Garðakaffi, þá í Stúkuhúsinu og síðast við Suðurgötu 108, en það hús hefur nú verið rifið. „Við erum eiginlega á hrakhólum með húsnæði en fáum núna inni í Stúkuhúsinu gegn því að kaupa kaffi og kruðerí af vertinum þar. Vonandi mun rætast úr og við fá inni fyrir starfsemina sem fyrst á góðum stað,“ segir Bjarki.

Auk Guðmundar Bjarka og Guðbjargar eru í stjórn Vitans þeir Þorvaldur Sveinsson gjaldkeri, Hrannar Örn Hauksson varaformaður og Eyjólfur Matthíasson meðstjórnandi. Varastjórn mætir sömuleiðis á fundi en í henni eru Helga Guðmundsdóttir og Jón Sævar Hallvarðsson. Þau Bjarki og Guðbjörg hvetja að endingu alla sem áhuga hafa fyrir starfi félagsins að mæta á nýliðafundinn 27. mars.