Fréttir
Horft til vesturs yfir hótelbyggingu, Stapanes í fjarska. Í skipulagsdrögum er lögð áhersla á að hús aðlagist mjög umhverfinu.

Stór áform um ferðaþjónustu í Eyja- og Miklaholtshreppi

Fyrirtækið Laxárbakki resort ehf. áformar uppbyggingu stórfelldrar ferðaþjónustu á jörðinni Laxárbakka í Eyja- og Miklaholtshreppi. Skráðir eigendur þess eru hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Um er að ræða 45 herbergja hótel með heilsumiðstöð með laugum, veitingastað, þjónustu- og starfsmannahúsi, þyrlupalli og allt að 19 frístundabyggðarhúsum. Hámarksfjöldi gesta á hótelinu verður 90 en gert er ráð fyrir að veitingastaður getið tekið við 150 gestum. Gestir í heilsumiðstöð geti orðið allt að 150. Í frístundahúsum er miðað við fjóra gesti í hverju húsi, alls 76. Hámarksfjöldi gesta í laugum við hótel er 60 en 100 við heilsulind. Hámarksfjöldi í gistingu er því 166 manns en veitingastaður og heilsulind geta tekið við allt að 150 manns.