Fréttir
Feðgarnir Steinólfur og Jónas bisa hér við að ná 43 kílóa þorki upp úr karinu fyrir myndatöku. Ljósm. mm

Boltaþorskur að veiðast út af Akranesi

Sjómaðurinn Steinólfur Jónasson á Skarphéðni SU-3 á Akranesi kom í gær að landi með dágóðan afla; ríflega þrjú tonn af boltaþorski, eða aulaþorski eins og hann er stundum kallaður. Steinólfur hefur verið að gera mjög góðar veiðiferðir að undanförnu. Meirihluti aflans úr þessari ferð flokkaðist í átta kíló plús, en restin í 4-8 kíló, allt mjög fallegur fiskur. Stærsti þorskurinn vó 43 kíló. Með Steinólfi í túrnum var Jónas Benediktsson faðir hans, en vegna góðrar veiði að undanförnu fékk hann föður sinn með sér, en Jónas býr austur á Fáskrúðsfirði. Að löndun lokinni hjálpaði Gauji þeim við að hífa ís um borð og var umsvifalaust siglt á miðin á ný.