
Högg á dreifikerfið og Norðurál leysti út
Um klukkan 20:11 í kvöld varð stór högg í flutningskerfi rafmagns og leysti m.a. stóriðja og fleira stórnotendur út og rafmagn fór af um tíma á Vestfjörðum og Austurlandi. Norðurál á Grundartanga leysti út allt álag og um leið kom högg á tengivirki í flutningskerfinu. Meðal annars leysti út um tíma Mjólkárlína 1 og Breiðadalslína 1. Klukkan 21:06 segir í tilkynningu Landsnets að truflunin sem orsakaði högg á landskerfið sé yfirstaðin og kerfið nú stöðugt. Í nýrri tilkynningu frá Landsneti segir að yfir 600 Megavött (MW) hafi farið út á augabragði hjá Norðuráli. Þar segir að um sé að ræða gríðarlega stórt högg á flutningskerfið. "Til að setja það í einhvers konar samhengi er uppsett afl Kárahnúkavirkjunar 690 Megawött."
Við þessar rafmagnstruflanir virðist sem eitthvað hafi gefið sig því klukkan 20:20 í kvöld var Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar kallað út á hæsta forgangi að Norðuráli. Þar logaði í rafmagnsinntaki við húsvegg þegar þessi mynd var tekin um klukkan 20:45 í kvöld. Slökkvilið er enn að störfum. Skessuhorn náði ekki í upplýsingafulltrúa Norðuráls vegna atviksins, en Sólveig Bergmann staðfesti við fréttastofu ruv.is fyrir skömmu að álverið hafi misst rafmagn laust fyrir klukkan hálf níu í kvöld. Hún segir engin slys hafa orðið á fólki og búið sé að rýma svæðið. Unnið sé að því að fá yfirlit yfir stöðuna.