Fréttir

Auglýsingaskilti skal fjarlægja

Síðastliðinn fimmtudag kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp þann úrskurð að led-auglýsingaskilti í landi Kirkjubóls í Hvalfjarðarsveit sem er í eigu S-23 skuli víkja. Var með úrskurðinum staðfest ákvörðun byggingafulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember síðastliðnum um að umrætt skilti stæðist ekki byggingareglugerð. Margir þekkja til skiltisins sem undanfarin tvö ár hefur verið nokkuð áberandi norðan við hringtorgið í krikanum þar sem vegur greinist norðan við Hvalfjarðargöngin, annars vegar á Akranes og hins vegar áfram eftir þjóðvegi 1 og norður í land. Um er að ræða stafrænt skilti sem birtir tölvustýrðar auglýsingar og þar að auki upplýsingar um hitastig og hvað klukkan slær.