
Hér er bílalestin á norðurleið og að fara yfir Gljúfurá. Ljósm. mm
Heilt þorp á ferðinni
Síðdegis í gær fór óvenjulegur flutningur um þjóðveg 1 í Borgarfirði, en þá óku í lögreglufylgd tólf flutningabílar hver með sinn húshlutann áleiðis norður í land. Að sögn Arnars Geirs Magnússonar hjá Lögreglunni á Vesturlandi voru þetta hús sem verið var að flytja frá Selfossi og áleiðis til Húsavíkur. Í þessum áfanga ferðarinnar fylgdi Lögreglan á Vesturlandi flotanum í Staðarskála þar sem áð var í nótt. Í dag er síðan stefnan tekin á Húsavík. Arnar Geir segir að breidd farmsins hafi verið 4,4 metrar og mesta hæð 6,5 metrar en slík farmbreidd kallar ætíð á lögreglufylgd. Vegna hæðar var á einum stað í Norðurárdal sem starfsmenn Rarik gerðu ráðstafanir enda ekið þar undir raflínu. Flutningarnir norður í Staðarskála gengu eins og í sögu.