Fréttir
Hér má sjá varmadælur á húsgafli Hallarinnar í Ólafsvík, en Snæfellsbær er eitt þeirra köldu svæða sem nú verða skoðuð sérstaklega í átaki ráðherra.

Hrindir af stað átaki til jarðhitaleitar – kynning í streymi klukkan 13 í dag

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að efnt verði til sérstaks átaks í leit og nýtingu jarðhita. Átakið beinist að leit og nýtingu jarðhita á svo nefndum köldum svæðum, þar sem húsnæði er hitað upp með rafmagni eða olíu. Verður þetta stærsta jarðhitaátak sem stjórnvöld hafa skipulagt á þessari öld. Í dag eru yfir 90% íslenskra heimila með aðgang að jarðhitaveitu, en þau 10% sem ekki hafa aðgang að jarðhitaveitu þurfa ýmist að hita heimili sín upp með rafmagni eða olíu. Kyndingarkostnaður þar er því umtalsvert hærri en þar sem jarðhiti er til staðar.