
Guðbjörg Sveinsdóttir og Emma Rakel Björnsdóttir afhentu Haraldi Benediktssyni bæjarstjóra áskorun 248 einstaklinga um að Saman á Skaga verði endurræst hið fyrsta. Ljósm. mm
Afhentu áskorun um að endurvekja virkniverkefnið Saman á Skaga
Fyrr í dag var bæjarstjóranum á Akranesi afhentur undirskriftalisti með nöfnum 248 einstaklinga sem mótmæla því að virkniverkefnið Saman á Skaga liggur nú niðri vegna þess að það var ekki fjármagnað í fjárhagsáætlun ársins 2025. „Saman á Skaga hefur það meginmarkmið að efla félagslega virkni og draga úr einangrun hjá fullorðnu fólki með fötlun,“ segir í yfirskrift söfnunarinnar. Skorað er á bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að endurskoða málið og fjármagna verkefnið hið fyrsta til að það geti hafist að nýju. Haraldur Benediktsson bæjarstjóri veitti áskoruninni viðtöku. Sagði hann að málið væri nú til skoðunar innan bæjarkerfisins, en vildi þó engu lofa um hvort sú skoðun leiddi til að verkefnið yrði endurvakið.