Fréttir
Tristan Sölvi, Magnea, Anna María og Gunnar Smári leika aðalhlutverkin í Gauragangi. Ljósm. beg

FVA frumsýnir söngleikinn Gauragang í lok mars

Leiklistarklúbburinn Melló í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi æfir stíft þessa dagana fyrir uppsetningu á söngleiknum Gauragangi sem byggður er á skáldsögu eftir Ólaf Hauk Símonarson. Einar Viðarsson er leikstjóri, Elfa Margrét Ingvadóttir sér um tónlistarstjórn og Sandra Ómarsdóttir um öll dansatriði. Æfingar hófust um miðjan febrúar og frumsýning er áætluð föstudaginn 28. mars í Bíóhöllinni. Gauragangur hefur tvisvar áður verið sýndur af nemendum FVA, fyrst árið 2004 og síðan tíu árum síðar eða 2014 og þá leikstýrt af þeim Halla Melló og Gunnari Sturlu Hervarssyni. Eins og flestir vita er tónlistin í sýningunni samin af hljómsveitinni Nýdönsk. Blaðamaður Skessuhorns kíkti við í FVA fyrir helgi þar sem æfing var í gangi og hitti þar að máli formenn leiklistarklúbbsins Melló, þær Bergþóru Eddu Grétarsdóttur og Ásdísi Erlingsdóttur.