
Tölvugerð mynd Vegagerðarinnar af fyrirhuguðum framkvæmdum. Dynjandisfoss til hægri á myndinni.
Borgarverk að hefja framkvæmdir á Dynjandisheiði
Vegagerðin og Borgarverk hafa skrifað undir verksamning um þriðja áfanga Dynjandisheiðar á Vestfjörðum. Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 7,2 km kafla, ásamt um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð keðjunarplans og gerð áningarstaðar. Fram kemur á síðu Vegagerðarinnar að Borgarverk mun hefja framkvæmdir innan skamms en fyrirtækið sinnir þegar tveimur öðrum framkvæmdaverkum á svipuðum slóðum, annars vegar fyllingum vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar og hins vegar verkefni við varnargarða nærri Flateyri. Verkefninu á Dynjandisheiði að á vera lokið 30. september 2026.