
Suðvestan hvassviðri samhliða hárri sjávarstöðu boðar sjaldan gott
Frá því á föstudag hefur verið hvöss suðvestanátt við suðvesturströndina samhliða hárri sjávarstöðu. Slíkt boðar einmitt vandræði. Landhelgisgæslan og fleiri stofnanir vöruðu við því á föstudag að fólk skyldi huga að festingum báta í höfnum og almennt vera á varðbergi þar sem hús og önnur mannvirki eru nærri sjó. Þær viðvaranir áttu vissulega rétt á sér því víða hefur sjór gengið á land og sumsstaðar valdið tjóni. Meðal annars á Seltjarnarnesi og Gróttu þar sem talsvert tjón varð í gærmorgun þegar hásjávað var. Á Akranesi var sömuleiðis mikill sjógangur og flæddi upp á land meðal annars á Breið og Ægisbraut. Verst var ástandið á flóði snemma í gærmorgun og þurfti að leita aðstoðar viðbragðsaðila þegar tók að flæða í kjallara húss við Vesturgötu. Þá gekk mikið á við sjávarsíðuna þar sem grjót og allskyns rusli skolaði á land. Meðal annars skolaði stórum olíutanki á land á Langasandi í gærmorgun. Mögulega hefur hann komið frá Gróttu. Þá var Björgunarfélag Akraness kallað út til að koma böndum á bát sem var að losna í höfninni. Ljóst er að talsvert hreinsunarstarf er framundan.