Íþróttir
Hinrik Harðarson skoraði tvö mörk á móti Fjölni. Hér í leik gegn Breiðabliki síðasta sumar. Ljósm. gbh

Skagamenn með sigur á Fjölni í markaleik

Fjölnir og ÍA mættust í Lengjubikarnum í A deild karla í riðli 1 í gærkvöldi og var leikurinn í Egilshöll í Grafarvogi. Fyrir leik voru Skagamenn með fimm stig í riðlinum eftir þrjá leiki en heimamenn án sigurs í þremur leikjum. Fyrsta mark leiksins kom strax á fimmtu mínútu þegar Mikael Breki Jörgensson átti ágætis skot í fjærhornið fyrir utan teig eftir góða sókn Fjölnis. Adam var þó ekki lengi í dís paranna því aðeins mínútu síðar sendi Jón Gísli Eyland knöttinn fyrir mark Fjölnis þar sem Hinrik Harðarson var á réttum stað og skóflaði boltanum með vinstri upp í þaknetið. Staðan 1-1 og fjörið rétt að byrja í fyrri hálfleik. Fjórum mínútum síðar sendi Erik Sandberg boltann upp vinstri kantinn á Ómar Björn Stefánsson sem kom með fyrirgjöf í fyrsta og beint á kollinn á Hauki Andra Haraldssyni sem stangaði hann í nærhornið. Virkilega vel gert og gestirnir komnir yfir eftir rúmar tíu mínútur. Þeir bættu síðan við forskotið á 21. mínútu þegar brotið var á Ómari Birni rétt fyrir utan vítateig og réttilega dæmd aukaspyrna. Fyrirliðinn Rúnar Már Sigurjónsson tók hana og skaut boltanum yfir vegginn í nærhornið og markvörður Fjölnis varð að játa sig sigraðan. Ekki voru fleiri mörk skoruð í hálfleiknum þrátt fyrir nokkur færi og staðan 1-3 í hálfleik, ÍA í vil.

Skagamenn með sigur á Fjölni í markaleik - Skessuhorn