
Kennarar á Akranesi fjölmenntu á bæjarstjórnarfund
Fundur í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar stendur nú yfir. Fyrir fundinn höfðu kennarar safnast saman við Tónlistarskólann og gengu þaðan fylktu liði í bæjarþingsalinn við Dalbraut 4. Þar afhentu þeir bæjarstjórn Akraneskaupstaðar ályktun frá félagsmönnum Kennarasambands Íslands sem starfa á Akranesi. Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs tók við ályktuninni fyrir hönd bæjarstjórnar frá Elís Þór Sigurðssyni fulltrúa trúnaðarmanna. Á annað hundrað kennarar úr fimm leikskólum, tveimur grunnskólum og Fjölbrautaskóla Vesturlands voru mættir og létu vel í sér heyra fyrir bæjarstjórnarfund. Þeir sátu síðan bæjarstjórnarfund meðan lesin var sameiginleg ályktun bæjarstjórnar, en yfirgáfu þá fundinn. Tveir bæjarfulltrúar; Valgarður Lyngdal Jónsson og Kristinn Hallur Sveinsson lýstu sig vanhæfa til að fjalla um mál kennara og gengu af fundi meðan ályktun bæjarstjórnar var lesin upp.
Ályktunin kennara er svohljóðandi:
„Kennarar á Akranesi lýsa yfir miklum vonbrigðum með stöðu samningamála og skora á Akraneskaupstað að beita sér innan Sambands íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að samningar náist og verði undirritaðir.
Árið 2016 var gert samkomulag þess efnis að laun á milli markaða yrðu jöfnuð og laun félagsfólks Kennarasambands Íslands væru metin til jafnst við laun annarra sérfræðinga með sambærilega háskólamenntun á almennum markaði, í staðinn létu kennarar eftir lífeyrisréttindi. Lífeyrisréttindin voru jöfnuð með snatri en eftir situr jöfnun á launaliðnum og við þetta sættum við okkur ekki lengur og krefjumst þess að staðið verði við samkomulagið frá 2016.
Skerðing sem hefur orðið á þeim 9 árum á lífeyrisréttindum kennara er óbætanleg en hægt er að taka skrefið í að breyta rétt.
Við lýsum yfir fullum stuðningi við aðgerðir Kennarasambands Íslands, og viljum jafnframt skora á Akraneskaupstað að sýna og sanna að Akranes sé sveitarfélag sem horfir til framtíðar og geri sitt til að liðka fyrir því að samningar verði kláraðir nú þegar, eða að öðrum kosti kljúfi sig frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í kjaraviðræðum við kennara og geri sérsamning við Kennarasamband Íslands. Áfram kennarar fyrir framíðina.“ Undir ályktunina rita trúnaðarmenn kennara á Akranesi.





