Fréttir
Halldór, Magnea og Friðþjófur með viðurkenningarnar. Ljósm. kfia.is

Fengu heiðursviðurkenningu á aðalfundi KFÍA

Seinni hluti aðalfundar Knattspyrnufélags ÍA fór fram mánudaginn 17. febrúar á Jaðarsbökkum. Í ársskýrslu stjórnar kemur fram að tap var á hefðbundinni starfsemi í rekstri á árinu 2024 sem nam rúmlega 34 milljónum króna. Tekjur af sölu leikmanna var um 81 milljón króna og jákvæð niðurstaða var af rekstrinum sem nam um 56 milljónum króna. Rekstrartekjur ársins námu um 367 milljónir króna en rekstrargjöldin voru um 400 milljónir.

Í skýrslunni segir: „Árið 2024 reyndist okkur Skagamönnum gott og einkenndist það af góðum árangri og mikilli uppbyggingu á innra starfi fótboltans. Starfsemi Knattspyrnufélags ÍA er mikil og öflug og reksturinn heilbrigður og sjálfbær. Lögð hefur verið áhersla á að hlúa vel að starfsmönnum félagsins og búa þeim gott vinnuumhverfi. Sérstaklega hefur verið fjárfest í uppbyggingu og innviðum yngri flokka félagsins. Uppeldisstarfið er í raun kjarninn í starfseminni og hjá félaginu starfa nú fjöldi hæfra og vel menntaðra þjálfara. Stefnt hefur verið að því að uppeldisstarfið sé í fremstu röð á landinu. Iðkendum hjá félaginu er að fjölga. Árið 2024 voru um 650 iðkendur en við viljum gera enn betur í því að fjölga þeim og þá sérstaklega kvenna megin. Í dag æfa um 40% af öllum strákum á Akranesi fótbolta hjá ÍA og rúmlega 20% af stelpum. Átak verður gert í því að fá fleiri stúlkur til æfinga.“

Á fundinum veitti Knattspyrnufélag ÍA þremur einstaklingum heiðursviðurkenningu fyrir framlag þeirra til félagsins í gegnum árin. Friðþjófur Helgasyni fékk heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag hans til varðveislu sögu knattspyrnunnar á Akranesi. Halldór Fr. Jónsson hlaut gullmerki fyrir framlag sitt til knattspyrnunnar á Akranesi og þá fékk Magnea Guðlaugsdóttir einnig gullmerki fyrir hennar framlag til kvennaknattspyrnunnar á Akranesi.

Fengu heiðursviðurkenningu á aðalfundi KFÍA - Skessuhorn