
Kennarar samþykktu innanhússtillögu en viðsemjendur undir feldi
Síðdegis í gær lagði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari fram innanhússtillögu til lausna kjaradeilu kennara á öllum skólastigum við ríki og sveitarfélög. Kennarar samþykktu tillöguna en sáttasemjari gaf hinu opinbera frest til klukkan tíu í gærkvöldi til að taka afstöðu til tillögunnar. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði svo í gærkvöldi eftir fresti til hádegis í dag og var fresturinn háður samþykki kennara sem þeir veittu. Þar af leiðandi skall á verkfall í fimm framhaldsskólum landsins, þeirra á meðal Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Hinir skólarnir eru Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Borgarholtsskóli og Verkmenntaskóli Austurlands auk Tónlistarskólans á Akureyri.