
Skattafróðleiksfundur síðdegis í dag
Rætt var við Helenu Rós Sigurðardóttur, verkefnastjóra hjá KPMG
„Við erum mjög spennt fyrir skattafróðleiksfundinum sem verður haldinn í dag, fimmtudaginn 20. febrúar, í Hjálmakletti í Borgarnesi og hefst klukkan 16:00. Þar verður farið yfir helstu breytingar á skattalögum sem hafa átt sér stað nýlega. Þetta er frábært tækifæri fyrir fólk að fá innsýn í nýjustu þróunina í skattamálum og hvernig þær breytingar geta haft áhrif á þeirra rekstur og persónuleg fjármál. Sérfræðingar okkar hjá KPMG Law munu einnig fara yfir ákveðin málefni sem eru sérstaklega viðeigandi núna,“ segir Helena Rós Helgadóttir verkefnastjóri hjá KPMG.
„Vorið er sá tími sem við sem einstaklingar þurfum að standa skil á framtölum okkar til Skattsins og gera grein fyrir tekjum, eignum og skuldum vegna nýliðins árs. Oft er gott að taka stöðuna á fjármálunum samhliða framtalsgerðinni,“ segir Helena Rós. Hún segir að hluti af slíkri vinnu geti falist í að staldra við og velta fyrir sér með hvaða hætti við viljum haga kynslóðaskiptum og erfðafjármálum. „KPMG hefur á að skipa hópi sérfræðinga með aðsetur á Vesturlandi auk þess að vera með aðgengi að neti annarra sérfræðinga á vegum fyrirtækisins um allt land og reyndar um allan heim ef út í það er farið. Hluti þessa hóps eru flottur hópur lögfræðinga hjá KPMG Law sem ætlar að koma til okkar í Borgarnes í dag,“ segir Helena Rós.
Á skattafróðleiksdeginum verður sérstök áhersla lögð á kynslóðaskipti í fyrirtækjum, en það er mjög mikilvægt efni fyrir fjölskyldufyrirtæki sem mögulega eru farin að huga að sölu eða tilfærslu á milli ættliða. „Viðfangsefnið getur verið flókið í framkvæmd og krefst mikillar þekkingar og undirbúnings. Farið verður yfir bestu leiðirnar til að tryggja að kynslóðaskiptin gangi vel fyrir sig og tryggja að ekki komi í ljós annmarkar síðar meir,“ segir Helena. „Einnig munum við fjalla um ný tilmæli frá Skattinum um breytingar á skattlagningu launagreiðslna hjá íþróttafélögum. Þetta er mjög viðeigandi umfjöllunarefni fyrir íþróttafélög og aðra sem starfa í þeim geira, en þessi tilmæli geta haft veruleg áhrif á rekstur þeirra. Við munum útskýra hvað þessar breytingar fela í sér og hvernig best er að bregðast við þeim.“
Helena Rós segir að skattamál snerti okkur öll, bæði einstaklinga og fyrirtæki. „Að vera vel upplýst um nýjustu breytingar getur hjálpað til við betri ákvarðanatöku og þannig komið í veg fyrir óþarfa vandamál. Einnig er tækifæri til að fá svör við spurningum og ræða við sérfræðinga á þessu sviði. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á skattamálum til að mæta og taka þátt í umræðunni. Auk þess er þetta frábært tækifæri til að tengjast öðrum í sama geira og deila reynslu og þekkingu. Viðburðir sem þessir geta verið mjög gagnlegir til að byggja upp tengslanet og fá nýjar hugmyndir og sjónarhorn. Við vonumst til að sjá sem flesta og að allir fái eitthvað gagnlegt út úr fundinum.“