
Opnir dagar og árshátíð í FVA fóru vel fram – Myndir
Opnum dögum í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er lokið í ár. Að sögn Steinunnar Ingu Óttarsdóttur skólameistara var að þessu sinni í boði á Opnum dögum fjöldi viðburða, fræðsluerinda og heimsókna í skólanum þessa þrjá daga sem þeir fóru fram eða frá mánudegi til miðvikudags. Meðal annars var farið í hesthús, skopp, pílu og á skauta. Nemendur fræddust einnig um Tudor-ættina, hraðtísku og klámvæðingu, spiluðu á spil, prjónuðu, elduðu grænmetisrétt, bjuggu til sápur og maska, smíðuðu fuglahús, kynntust vélarrúmshermi og lærðu að brjóta origami-trönur svo dæmi séu tekin. Allt starfsfólk skólans tók þátt í framkvæmdinni og þær Aldís Ýr Ólafsdóttir og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir skipulögðu og héldu utan um dagskrána af miklum skörungsskap.