
Væntanleg íbúðabyggð á Varmalandi tekur breytingum
Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt til auglýsingar breytingu á deiliskipulagi fyrir nýju íbúðabyggðina á Varmalandi í Stafholtstungum. Breyting nær til gatna sem heita Birkihlíð og Asparhlíð. Þetta er í þriðja skipti sem breyting er gerð á skipulagi svæðisins. Nú er í senn gerð breyting á skipulags- og byggingarskilmálum og skipulagsuppdrætti hverfisins. Í dag er íbúðahverfið óbyggt að öðru leyti en því að árið 2022 var byggt íbúðarhús á lóðinni Birkihlíð 6, en það hús stendur næst gamla húsmæðraskólanum, nú Hótel Varmalandi. Við síðustu breytingu á skipulagi hverfisins var gatan Birkihlíð minnkuð til að rúma fyrirhugaða stækkun Hótel Varmalands inn á hið deiliskipulagða svæði. Í skipulagslýsingu segir að markmið með breytingunni nú sé að skapa ramma um heildstæða fjölbreytta íbúðabyggð, að byggingar falli vel inn í umhverfið og að lóðir verði hagstæðar í uppbyggingu. Með breytingunni er m.a. lagt til að færa lóðamörk, legu gatna, fjölga íbúðum og nýta til fullnustu íbúðasvæðið.