
Hjörtur Sigurðsson og Víðir Haraldsson að landa úr línubátnum Kviku samtals um 10 tonnum. Fjær glittir í Ómar Gilsfjörð sem sá um að hífa aflann frá borði í Ólafsvík. Ljósmyndir: af
Góður afli og ýsa uppistaðan hjá dragnótarbátunum – myndir af kajanum
Aflabrögð í Snæfellsbæ hafa verið með besta móti í þessari viku. Eftir langa óveðurstíð hefur gefið til sjósóknar og bátar mokfiskað að undanförnu. Ýsuaflinn hjá dragnótarbátum hefur aukist talsvert og meðal annars var dragnótarbáturinn Matthías SH með 16 tonn af ýsu af 20 tonna afla. Að sögn Þórðar Björnssonar hafnarvarðar er meirihluti aflasamsetningar dragnótarbátanna ýsa en Steinunn SH var í gær með svo til eingöngu þorsk þegar báturinn landaði 31 tonni.