
Einungis heilbrigðisstarfsfólk má sprauta í varir
Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur undirritað nýja reglugerð sem kveður á um takmarkanir á útlitsbreytandi meðferðum með fylliefnum. Eftir gildistöku mega aðeins læknar með sérfræðileyfi í húðlækningum og lýtalækningum og annað heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur aflað sér fullnægjandi þekkingar, sprauta fylliefnum undir húð. Í tilkynningu þess efnis á vef Stjórnarráðs Íslands segir að markmiðið sé að tryggja öryggi þeirra sem undirgangast meðferð með fylliefnum sem er sprautað eða komið með öðrum hætti fyrir, í eða undir húð, í vöðva eða annan vef.