
Matsferill og ný samræmd próf á landsvísu
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, lagði í síðustu viku fram á Alþingi frumvarp um nýtt námsmat, svokallaðan Matsferil. „Matsferil er m.a. ætlað að koma í stað gömlu samræmdu prófanna sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi. Í þeirra stað verða ný samræmd próf í íslensku og stærðfræði lögð fyrir í öllum grunnskólum skólaárið 2025–2026. Matsferill er safn matstækja, sem að hluta eru valkvæð og öðrum hluta skylda, sem ætlað er að gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna. Auk nýrra samræmdra prófa mun Matsferill innihalda fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi til að fá tíðari og fjölbreyttari mælingar á námsárangri barna. Innleiðing á þessum hluta Matsferils er þegar hafin og heldur áfram á næsta skólaári,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.