
Sveinbjörn Geir kjörinn Skagamaður ársins
Skagamaður ársins 2024 var útnefndur á þorrablóti Skagamanna sem fram fór fyrir fullu íþróttahúsi við Vesturgötu í gærkvöldi. Skagamaður ársins er Sveinbjörn Geir Hlöðversson, formaður knattspyrnufélagsins Kára og driffjöður í starfi félagsins.
Það var Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs sem kynnti niðurstöðuna sem meðal annars byggir á fjölda tilnefninga. Líf sagði m.a. að Skagamaður ársins 2024 hafi haldið um taumana hjá Knattspyrnufélaginu Kára frá árinu 2011 sem formaður félagsins: „Félagið, sem gerði sér lítið fyrir og vann þriðju deildina í knattspyrnu síðasta sumar og leikur því í annarri deild næsta sumar. Svenni hefur því um árabil gengið í öll störf sem þarf að inna af hendi til að halda félaginu gangandi hvort sem það eru leyfismál, skipulag og utanumhald um leiki eða þvottur á búningum félagsins. Þá má ekki gleyma dyggum stuðningi sem hann hefur ávallt fengið til verksins frá eiginkonu sinni Helgu Sif Halldórsdóttur.“ Líf flutti jafnframt kveðskap sem Valgarður Lyngdal Jónsson forseti bæjarstjórnar samdi af þessu tilefni:
Ungur var hann öllum sneggri,
einatt klár og flestum gleggri,
við að skjóta og skora mörk.
Best það sást að bráðum myndi
boltinn verða hans líf og yndi,
leit þess mark á lífsins örk.
Fræknu liði frama tryggði,
frábært starfið upp hann byggði,
ekkert dró hann undan þar.
Seldi miða, sá um kaffið,
sjálfur var hann gjörvallt staffið,
á atorku var ekki spar.
Káramenn hér kappi fylgdu,
klárir upp um deild þeir sigldu,
Andstæðinga mörðu í mél.
Formaðurinn fagnar kátur,
fannst þar bros og gleðihlátur.
Fór svo heim og setti í vél.
(VLJ)