Fréttir
Horft frá austri yfir væntanlega byggð á norðurhluta Dalbrautarreits. Íbúar í eldri húsum við Dalbraut mótmæltu skipulaginu og óttast m.a. skuggavarp sem af háreistum húsum hlýst. Teikning úr skipulagsgögnum á akranes.is

Bæjarstjórn staðfesti skipulag síðari hluta Dalbrautarreits

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar á þriðjudag í liðinni viku var til umræðu og afgreiðslu breyting á deiliskipulagi Dalbrautarreits norður. Skipulagssvæðið nær yfir um 1,9 ha að flatarmáli og snýst um lóðirnar Þjóðbraut 9, 11, 13 og 13a en auk þess Dalbraut 10, 14 og 16. Í skipulaginu er gert ráð fyrir þriggja til fimm hæða íbúðabyggð á svæðinu með um 120-150 íbúðum. „Meginhluti hennar verður randbyggð umhverfis inngarð. Heimilt verður að hafa atvinnustarfsemi á jarðhæðum Þjóðbrautar 9 og 11, sem snúa að Þjóðbraut. Lögð verður áhersla á gæði íbúða og tengsl þeirra við umhverfið, bæði göturými/almannarými og garð,“ segir í lýsingu með skipulaginu. Samkvæmt því verður nokkur fjöldi húsa rifinn. Eins og kom fram í Skessuhorni í síðustu viku hefur Akraneskaupstaður nú keypt hús sem tilheyra starfsemi N1 á svæðinu, þ.e. Skútuna og dekkjaverkstæði auk sjúkrabílaskýlis. En samkvæmt skipulaginu þurfa fleiri hús að rísa, t.d. iðngarðar við Dalbraut 16 sem þar sem nokkur fyrirtæki eru með starfsemi. Einungis er gert ráð fyrir að á skipulagsreitnum verði Þjóðbraut 13 látin halda sér, en þar er Lögreglan á Vesturlandi með aðsetur en á efri hæð tómstundamiðstöðin Þorpið.Fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar að þrjár athugasemdir hafi borist við skipulagið þegar það var auglýst í haust. Tvær þeirra eru frá íbúum við norðanverða Dalbraut sem mótmæltu harðlega hversu há hús eru fyrirhuguð á byggingarreitnum. Benda þeir á að hús þeirra verði fyrir skuggavarpi og átelja skort á samráði við þá í aðdraganda skipulagsins. Andrés Ólafsson sem býr við Dalbraut 25 skrifar m.a: „Við íbúar á þessu svæði erum brenndir af samskiptum við sveitarfélagið í þessum skipulagsmálum og reynslan sýnir að það er jafnvel tímasóun að koma með athugsemdir/ ábendingar/ sjónarmið vegna breytinga Dalbrautarreits norðurhluta.“

Bæjarstjórn staðfesti skipulag síðari hluta Dalbrautarreits - Skessuhorn