
Varla er pláss á kortinu fyrir öll varúðarmerkin
Síkvikt kort Vegagerðarinnar á umferdin.is er hin besta upplýsingaveita um ástand vega og færð hverju sinni. Þar eru ökumenn jafnan varaðir við ef einhverjar hættur eru til staðar vegna veðurs, færðar eða ástands vega. Í dag bregður svo við að veður er með allra besta móti miðað við árstíma. En færðin er engu að síður afleit, ef marka má varúðarskiltin á kortinu, en skjáskot af því var tekin klukkan 09:39 í dag, föstudaginn 14. febrúar. Þessi benda varúðarmerkinga helgast einkum af því að hættustig er í gildi vegna bikblæðinga á Bröttubrekku, í gegnum Dalina, yfir Svínadal og út Hvolsdal en einnig á veginum yfir Vatnaleið, undir Hafursfelli og að Heydalsafleggjara. Einnig hefur orðið vart við bikblæðingar í Borgarfirði og á Holtavörðuheiði. Til viðbótar þessu má finna tvær varúðarmerkingar. Annars vegar vegna þess að umferð yfir brúna hjá Laxá í Leirársveit er stýrt með ljósum meðan nýtt vegrið er skrúfað upp og loks er Hvítárvallavegur ófær vegna þess að engin brú er lengur yfir Ferjukotssíkin.
Alþingi Íslendinga, fjárveitingavaldið, kom saman í síðustu viku. Hjá því verður ekki komist að þingmenn Norðvesturkjördæmis taki málið upp. Bent skal á að síðustu þrjár fréttir hér á vefnum fjalla um tengd mál, enda telja bæði Snæfellingar og Dalamenn að nú sé mælirinn einfaldlega fullur!