Fréttir
Yfirlitsmynd og skipulagssvæðið í Galtarlæk innan rauða hringsins. Mynd úr vefsjá landseigna hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Skipulag að nýrri höfn og athafnasvæði í Galtarlæk við Hvalfjörð

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 22. janúar síðastliðinn að auglýsa skipulagslýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu á jörðinni Galtarlæk, en jörðin er sunnan við athafnasvæðið á Grundartanga. Bókun sveitarstjórnar var samþykkt samhljóða og var eftirfarandi: „Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir tillögu nefndarinnar [skipulagsnefndar, innsk. blm] að auglýsa lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í landi Galtalækjar í Hvalfjarðarsveit. Í því felst m.a. að leita umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi.“

33 lóðir og höfn

Jörðin Galtarlækur er um 127 ha að stærð en skipulagið sem auglýst er nær yfir 80 ha jarðarinnar neðan þjóðvegar. Í gögnum um málið í Skipulagsgátt kemur ekki fram hverjir standa að baki gerð skipulagslýsingar, sem verkfræðistofan Efla vann, en samkvæmt heimildum Skessuhorns eru landeigendur Galtarlækjar feðgarnir sem kenndir eru við Skagaverk ehf. Í gildandi aðalskipulagi er Galtarlækur skilgreindur sem landbúnaðarland. Því þarf að breyta skipulagi en samhliða breytingu á því er unnið deiliskipulag fyrir svæðið. Fyrirhugað er að á svæðinu verði starfsemi sem hýsi vörugeymslur, geymslusvæði, léttan iðnað og ýmiss konar þjónustusvæði, t.d. vegna hafnsækinnar starfsemi, en 33 athafnalóðir eru innan svæðisins. Gert er ráð fyrir höfn og viðlegukanti sem muni þjónusta flutninga- og skemmtiferðaskip.

Stærstu skip geti lagst að bryggju

Í inngangi skipulagslýsingar, sem verkfræðistofan Efla samdi, segir um verkefnið: „Athafnasvæði og hafnarsvæði verða samliggjandi núverandi atvinnusvæði á Grundartangasvæðinu og höfn og viðlegukantur verður í framhaldi hafnarmannvirkja á Grundartanga. Áætlað er að höfn muni þjónusta flutningaskip og hluti hafnar mun einnig geta sinnt stórum skemmtiferðaskipum.“ Höfnin sem um ræðir yrði 1.000 metra löng. 33 lóðir fyrir athafnastarfsemi eru samkvæmt skipulaginu, en um þær segir: „Gert er ráð fyrir að innan skipulagssvæðis verði hreinlegri athafnastarfsemi en er á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og verður umhverfisvænum lausnum beitt varðandi neysluvatn, fráveitu og raftengingar skipa og bifreiða. Fyrirhugað er að á svæðinu verði starfsemi sem hýsi vörugeymslur, geymslusvæði, léttan iðnað og ýmiss konar þjónustusvæði, t.d. vegna hafnsækinnar starfsemi. Aðstæður á svæðinu eru heppilegar fyrir hafnargerð, þarna er aðdjúpt en stutt í efnisnámur í fyllingar og hafnargarða. Að bryggjunni gætu því lagst stór skip með mikilli djúpristu, t.d. stór skemmtiferðaskip og flutningaskip, sem er ekki hægt hvar sem er eins og staðan er í dag. Auk þess sem núverandi hafnir við Faxaflóa anna tæpast núverandi skipaumferð. Gert er ráð fyrir að öll skip hafi möguleika á landtengingu við rafmagn, sem dregur verulega úr útblæstri og mengun frá þeim.“

Rak í rogastans

Í skipulagslýsingu eru Faxaflóahafnir ekki skráðar sem umsagnaraðili við verkefnið. Í frétt Morgunblaðsins í dag er haft eftir Gunnari Tryggvasyni hafnarstjóra að fyrirtækið muni leita nánari skýringa hjá sveitarfélaginu. „Okkur rak í rogastans við að sjá þetta og við áttum okkur ekki alveg á því á hvaða vegferð menn eru á þessu svæði,“ sagði Gunnar Tryggvason í samtali við Morgunblaðið. „Við höfum verið að byggja upp Grundartangahöfn í 40 ár og það er töluvert af uppbyggingarmöguleikum eftir. Við sjáum því ekki alveg skynsemina í því að fara að raska öðru svæði fyrir hafnargerð þegar Grundartangi er ekki fullnýttur því það er töluvert umhverfisrask af höfnum,“ sagði Gunnar.

Næstu lóðir sunnan við nýtt athafnasvæði í Galtarlæk eru smábýlin Glóra og Hlésey sem byggð voru úr landi Galtarvíkur. Jóhanna G Harðardóttir býr í Hlésey. Þegar blaðamaður Skessuhorns spurði hana um málið í morgun, rak hana í rogastans líkt og hafnarstjóri Faxaflóahafna gerði í viðtalinu við Morgunblaðið. „Þú ert að segja mér fréttir,“ sagði Jóhanna. „Þessar áætlanir um uppbyggingu á Galtarlæk hér við hliðina á okkur hafa aldrei á neinum tímapunkti verið kynntar okkur,“ sagði Jóhanna.

„Nú er nóg komið“

Þrjá athugasemdir hafa nú borist í Skipulagsgátt vegna verkefnisins. Í fyrsta lagi frá Skipulagsstofnun sem gerir nokkrar athugasemdi. Í öðru lagi frá Fiskistofu sem mælir með að framkvæmdatími, ef af verkefninu verður, verði valinn með það fyrir augum að framkvæmdirnar hafi sem minnst áhrif á göngur fiska í veiðivötn eða í ætisleit. Loks mótmælir Kjósarhreppur harðlega þessari ráðagjörð. Í lokaorðum hreppsins segir: „Sveitarstjórn Kjósarhrepps leggst alfarið gegn allri skipulagningu við fjörðinn sem með beinum eða óbeinum hætti hefur neikvæð áhrif á lífríki fjarðarins og telur að nú sé komið nóg.“

Opið er fyrir athugasemdir vegna málsins á Skipulagsgátt til 27. febrúar 2025.

Vinnuteikning MarkSTOFU ehf úr aðalskipulagslýsingu sem sýnir hugsanlega niðurröðun 33 lóða í landi Galtarlækjar auk kílómeters langrar stórskipa
bryggju.