
Hér sést hvernig aðstaðan mun líta út og er þetta töluverð stækkun við hafnarhúsið. Ljósm. tfk
Byrjað að steypa viðbyggingu við hafnarhúsið
Það hefur verið nóg um að vera á höfninni í Grundarfirði síðustu vikurnar en á milli þess sem skipin koma með fullfermi í land þá eru einnig framkvæmdir við hafnarhúsið. Í vikunni var byrjað að raða upp einingum og steypa nýja viðbyggingu við húsnæðið. Þarna verða meðal annars salerni fyrir ferðamenn og aðstaða fyrir leiðsögumenn skemmtiferðaskipa. Undanfarin misseri hafa verið sett upp gámaklósett til bráðabirgða á meðan skemmtiferðaskipin eru að koma en nú verður aðstaðan mun betri fyrir farþega og starfsfólk hafnarinnar.