Fréttir
Runnið frá vegræsi á Mýrunum. Ljósm. hjg

Rennur frá vegræsum í leysingaveðrinu

Úrkoma síðustu daga og leysingar hafa víða farið illa með vegina. Malbiksskemmdir eru þannig mjög víða. Starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar vinna nú að því að gera við holur og aðrar skemmdir sem hafa myndast á vegum víða um land eftir umhleypingasamt veður. „Unnið er við erfiðar aðstæður, þar sem umferð ökutækja er mikil, jafnvel dimmt í veðri, mikil rigning og bleyta. Erfitt getur verið fyrir ökumenn að sjá fólk að störfum sem skapar hættu á slysum,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni sem biðlar því til ökumanna að sýna sérstaka varkárni og draga úr hraða þegar ekið er hjá viðgerðarsvæðum.

En það eru auk þessa annars konar skemmdir á vegakerfinu. Á meðfylgjandi mynd sést hvar runnið hefur meðfram vegræsi vestur á Mýrum og er nú ófært þar um fyrir mjólkurbílinn og önnur stærri ökutæki. Svipaðar skemmdir eru víðar að finna. Meðal annars fékk Skessuhorn ábendingu um að runnið hafi úr vegræsi á Reykholtsdalsvegi milli afleggjaranna að bæjunum Skáney og Grímsstöðum. Þar sem annars staðar þarf því að aka með varúð þegar tíðarfarið gerir vegina enn viðsjárverðari en þeir voru.

Rennur frá vegræsum í leysingaveðrinu - Skessuhorn