Fréttir
Tómas Freyr er hér að fara yfir verklagið hjá elstu nemendum skólans.

Börnin bjarga í Grundarfirði

Dagný Ósk Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og Tómas Freyr Kristjánsson sjúkraflutningamaður komu í Grunnskóla Grundarfjarðar fimmtudaginn 6. febrúar síðastliðinn og kenndu nemendum í 6. til 10. bekk hvernig á að bera sig að við endurlífgun. Kennslan fjallaði um mikilvægi þess að temja sér rétt viðbrögð við hjartastoppi en farið var yfir verkferla áður en verklegar æfingar tóku við með þar til gerðum æfingadúkkum. Þessi fræðsla kallast „Börnin bjarga“ og er liður í fræðslu skólahjúkrunarfræðinga á vegum heilsugæslu. Fræðslan byggir á tilmælum Evrópska endurlífgunarráðsins sem hefur hvatt allar þjóðir til að taka upp endurlífgunarfræðslu fyrir nemendur 12 ára og eldri. Allir nemendur stóðu sig vel við æfingarnar og koma eflaust reynslunni ríkari út úr þessu.

Börnin bjarga í Grundarfirði - Skessuhorn