
Verkfallsaðgerðir dæmdar ólögmætar – nema í Leikskóla Snæfellsbæjar
Félagsdómur kvað í dag upp úrskurð þess efnis að verkfall kennara í 20 skólum landsins sé ólögmætt. Kennarar verða því á morgun að snúa aftur úr verkföllum í öllum sjö grunnskólunum og þrettán af fjórtán leikskólum þar sem verkföll hófust um mánaðamót. Einungis í Leikskóla Snæfellsbæjar er verkfallið dæmt lögmætt, en þar hefur skert þjónusta verið í gangi undanfarna viku. Þar eru einungis 6 af 28 starfsmönnum félagsmenn í Kennarasambandinu. Verkfall var því dæmt ólögmætt m.a. í Grundaskóla á Akranesi og leikskólanum Teigaseli á Akranesi. Þetta er niðurstaða félagsdóms í kærumáli Sambands íslenskra sveitarfélaga gegn Kennarasambandi Íslands.
Niðurstaðan er sú að verkföllin eru ólögmæt alls staðar þar sem eru fleiri en einn leikskóli eða fleiri en einn grunnskóli eru starfræktir í sama sveitarfélagi og ekki greidd atkvæði af öllum félagsmönnum í sveitarfélaginu heldur aðeins hluta þeirra. Það á við í öllum sveitarfélögum þar sem verkföll hafa staðið yfir að Snæfellsbæ undanskildum. Í færslu á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að að Sambandið geri ráð fyrir því „að þau börn og kennarar sem hafa verið í verkfalli undanfarna viku mæti því til skóla í fyrramálið, að leikskólanum í Snæfellsbæ undanskildum“.
Samninganefndir kennara og viðsemjenda þeirra eiga að mæta til fundar í Karphúsinu klukkan 9 í fyrramálið.