
Viðgerð á raflínum lauk snemma í gærkvöldi
Hluti Mýranna var án rafmagns í rúman sólarhring frá því um klukkan 18 á miðvikudagskvöld þegar skörp skil lægðarinnar gengu yfir með miklum veðurofsa og eldingum. Hús á dreifikerfinu voru tekin að kólna enda vindkæling mikil. Laust fyrir klukkan 19 í gærkvöldi lauk viðgerð og var rafmagni hleypt á dreifikerfið í framhaldinu. Nokkrir staurar brotnuðu og þurfti að skipta þeim út fyrir nýja. Um svipað leyti tókst að gera við bilun í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og Stíflisdal í Kjós.