
Eftir undirritun samninga fór fram táknræn athöfn á lóðinni Elínarvegi 3 þar sem Haraldur bæjarstjóri og Ásta S Fjeldsted forstjóri Festi snæddu fyrstu af væntanlega mörgum Skútupylsum á nýjum stað. Ljósm. mm
Ný þjónustustöð N1 mun rísa við Elínarveg 3 á Akranesi
Fyrir hádegi í dag var skrifað undir tvíhliða samning milli Festi og Akraneskaupstaðar. Snýst samkomulagið um kaup bæjarins á fasteignum N1 á Akranesi, þ.e. Skútunni við Þjóðbraut og hjólbarðaverkstæðis N1 við Dalbraut. N1 mun í haust ráðast í framkvæmdir við nýbyggingu starfsstöðvar N1 á nýrri lóð austan við Hausthúsatorg sem fengið hefur nafnið Elínarvegur 3. Verður það fyrsta húsið sem mætir gestum sem aka inn til bæjarins. Hönnun húss og annarra mannvirkja er nú hafin, framkvæmdir hefjast síðar á þessu ári, en gert er ráð fyrir að nýja starfsstöðin taki til starfa síðla árs 2026. Þangað til hún verður tekin í notkun mun N1 halda óbreyttri starfsemi í Skútunni og á hjólbarðaverkstæðinu.