
Yfir 300 útköll björgunarsveita í óveðrinu í gær
Hin djúpa lægð sem gekk yfir allt landið síðdegis í gær og fram á kvöld var óvenjuleg að því leyti að hún hafði áhrif víðast hvar á landinu. Rauðar veðurviðvaranir voru í gildi um tíma á öllu landinu utan Vestfjarða. Mikill viðbúnaður var vegna veðursins og margir sem hlýddu ábendingum yfirvalda um að halda sig heima. Vinnustöðum og skólum var víða lokað fyrr en venja er til svo fólk kæmist til síns heima í tæka tíð. Þegar skil lægðarinnar gengu yfir var hvassast og fylgdi skilunum þrumur og eldingar sem víða sáust.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu gengu verkefni björgunarsveitarmanna almennt vel miðað við veðurhaminn. Yfir 300 útköll bárust á landinu öllu og var meirihluti þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Um 700 björgunarsveitarmenn komu að aðgerðum á landinu öllu. Flest útköllin voru vegna áhrifa vinds sem náði að rífa sig undir og fletta klæðningum af húsum, sprengja rúður, garðskúrar splundruðust, skjólveggir létu undan, heitir pottar hurfu út í loftið og fleira í þeim dúr. Ekki er vitað um alvarleg slys á fólki í veðurofsanum.