
Mikið álag á viðgerðaflokkum Rarik á Vesturlandi
Vegna óveðursins hefur orðið töluvert af truflunum í dreifikerfi Rarik síðasta tæpa sólarhringinn. Eldingaveður hefur tafið bilanaleit og mun gera það áfram í dag þar sem eldingaveðri er spáð á þeim svæðum þar sem bilanir hafa orðið. Búið er að finna þá hluta dreifikerfisins þar sem bilanirnar eru að mestu og verður farið í viðgerðir þar um leið og veður leyfir. „Framkvæmdaflokkar okkar voru í viðgerðum í alla nótt og vinna nú í kappi við klukkuna til að ljúka því sem hægt er að ljúka áður en þeir þurfa frá að snúa aftur vegna veðurs. Búið er að gera við þrjár af þeim sex bilunum sem hófust í gær,“ segir í tilkynningu frá Rarik.
Í veðurham eins og hefur verið frá því í gær getur margt gerst sem veldur bilunum. „Vindálag á dreifikerfið hefur verið gríðarlegt og hefur á einhverjum stöðum brotið staura. Einnig getur mikill vindur valdið samslætti á línum. Mikið eldingaveður hefur einnig valdið tjóni á einhverjum stöðum. Að auki tefur veðurofsinn fyrir viðgerðum þar sem ekki er öruggt að leita að bilunum eða gera við þær,“ segir í tilkynningu Rarik til Skessuhorns.
Óveðrið hefur að mestu haft áhrif á Vesturlandi en er nú farið að hafa áhrif á dreifikerfi Rarik á Austurlandi og er nú truflun í gangi á Þernunesi. Þá segir að á landsvísu megi tala um sex megintruflanir sem hófust í gær og eru þær eftirfarandi:
Helgafellssveit á Snæfellsnesi: Rafmagnstruflanir hófust á þessu svæði kl. 14 í gær en tókst að koma rafmagni á aftur stuttu síðar. Rafmagnið fór aftur af kl. 23 í gærkvöldi og tókst að koma því á aftur að hluta. Kolgrafafjörður er enn rafmagnslaus. Framkvæmdaflokkur er nú á leið þangað til að meta stöðuna og hefja viðgerð.
Skógarströnd/Álftafjörður: Rafmagn fór af á Skógarströnd og í Álftafirði kl. 16:08. Rafmagn komst aftur á Skógarströnd nokkrum tímum síðar en bilunin fannst í Álftafirði. Þar var rafmagnslaust en viðgerð var að ljúka nú kl. 10:35.
Mýrar: Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 í gær. Einhverjir viðskiptavinir eru komnir aftur með rafmagn en enn er stór hluti svæðisins án rafmagns. Á þessu svæði hafa fundist nokkrar bilanir sem þegar er búið að gera við en því miður eru fleiri bilanir á línunni og bilanaleit og viðgerðir stendur enn yfir.
Stíflisdalur í Kjós: Rafmagnslaust var í Stíflisdal frá kl. 18:55. Framkvæmdaflokkur komst þangað fyrir skömmu og rafmagn komst aftur á núna kl. 10:20.
Einnig urðu bilanir í Landbroti og Selvogi en búið að laga á báðum stöðum.
„Við viljum hvetja fólk til að fara varlega í þessum veðurham og láta stjórnstöð Rarik vita í síma 528 9000 ef það sér slitnar línur eða staurar brotna. Best er að halda sig í öruggri fjarlægð frá slíkum skemmdum. Einnig viljum við biðja viðskiptavini okkar um að sýna þolinmæði þar sem mikið álag er nú á þjónustuver okkar, stjórnstöð og framkvæmdaflokka. Allar upplýsingar um bilanir og stöðuna á dreifikerfinu má nálgast á rarik.is/rof.“
