
Akraneskaupstaður hélt kynningarfund fyrir Cruise Iceland
Akraneskaupstaður bauð meðlimum Cruise Iceland í heimsókn á þriðjudaginn til að kynna bæjarfélagið sem mögulegan áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Cruise Iceland eru hagsmunasamtök íslenskra hafna, ferðaþjónustuaðila, umboðsmanna skipafélaga og annarra sem tengjast móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Samtökin hafa það markmið að efla samstarf og upplýsingagjöf um skemmtiferðaskipaáfangastaðinn Ísland, bæði til innlendra og erlendra hagsmunaaðila. Meginhlutverk Cruise Iceland er að stuðla að sjálfbærum vexti greinarinnar með virðisaukningu fyrir alla hagsmunaaðila og gæta hagsmuna hennar. „Samtökin hafa góða yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri í þjónustu við skemmtiferðaskip og farþega þeirra og því verðmætt að geta leitað í reynslu þeirra. Það var ánægjulegt hve góð þátttaka og mæting var frá Cruise Iceland, hversu mikill áhugi er á Akranesi og vilji til að miðla góðum upplýsingum og ráðgjöf,“ segir í tilkynningu.