
Viðvaranir færðar upp í rautt vegna komandi ofsaveðurs
Rauðar veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir nánast allt land í dag. Spáð er sunnan stormi og sums staðar ofsaveðri á landinu. Við þessar aðstæður á fólk ekki að vera á ferðinni. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi frá hádegi. Búist er við lélegu skyggni og versnandi færð þegar líður á daginn og ekki útilokað að flestum vegum verði lokað. Nú þegar er búið að loka Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði og óvissustig gildir t.d. um veginn yfir Bröttubrekku og við Hafnarfjall.
Á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Breiðafirði eru rauðar veðurviðvaranir í gildi frá klukkan 16-19, á Suðurlandi, Ströndum og Norðurlandi vestra þær frá klukkan 16-20 í dag. Á Norðurlandi eystra taka rauðar veðurviðvaranir gildi klukkan 17 og eru í gildi til klukkan 22, á Austurlandi að Glettingi verða rauðar viðvaranir í gildi frá klukkan 18 og til klukkan 4, aðfararnótt fimmtudags og á miðhálendinu, Austfjörðum og Suðausturlandi taka rauðar viðvaranir gildi klukkan 20 í kvöld og gilda fram yfir miðnætti.