
Veðrið tekið að versna á utanverðu nesinu
Veðrið er tekið að versna á Snæfellsnesi og spáin er afleit eftir því sem líður á daginn. Í morgun var í gangi löndun úr línubátunum Tjaldi SH og Rifsnesi SH í hríðarbyl í Rifi. Skólahaldi í Grunnskóla Snæfellsbæjar lýkur fyrr í dag vegna slæmrar veðurspár.
Í dag verður vaxandi sunnanátt, 20-30 m/s seint í dag og hviður yfir 40 m/s. Enn hvassara verður við fjöll, t.d. á norðanverðu Snæfellsnesi, við Hafnarfjall og víðar. Appelsínugul viðvörun er að taka gildi við Breiðafjörð og gildir þar til síðdegis á morgun. Við Faxaflóa er sömuleiðis appelsínugul viðvörun að taka gildi, er fram yfir miðnætti og tekur síðan gildi að nýju seint í nótt.
Það verður talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hlýnar í veðri, hiti 2 til 9 stig í kvöld. Hægari um tíma í nótt. Sunnan 23-30 í fyrramálið og talsverð rigning, en mun hægari og snjókoma á Vestfjörðum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun, fyrst vestantil. Suðvestan 10-18 annað kvöld, él og hiti nálægt frostmarki.
