Fréttir

Mikið um óhöpp í umferðinni

Í liðinni viku voru um tíu ökumenn stöðvaðir vegna of hraðs aksturs í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi. Einnig hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum sem höfðu ekki skafið rúður bifreiða sinna með fullnægjandi hætti og eða voru ekki með öryggisbelti í notkun. Lögregla hafði afskipti af tveimur ökumönnum sem eru grunaðir um ölvun við akstur, jafnframt var einn ökumaður stöðvaður sem reyndist sviptur ökuréttindum við aksturinn. Ekið var aftan á bifreið í Hvalfjarðargöngum í vikunni, var einn fluttur á brott til aðhlynningar með sjúkrabifreið en hann var ekki talinn alvarlega slasaður. Harður árekstur varð á Akranesi milli tveggja bifreiða, einn var fluttur til aðhlynningar á brott en sá var ekki talinn alvarlega slasaður. Þá hafnaði bifreið utan vegar við Hafnarfjall, ekki urðu slys á fólki en einhverjar skemmdir á bifreiðinni. Bifreið hafnaði einnig utan vegar á Útnesvegi á Snæfellsnesi eftir að ökumaður missti stjórn á bifreiðinni en slabb og krap var á veginum. Ekki urðu slys á fólki en einhverjar skemmdir á bifreiðinni. Þrjú minni háttar umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku, öll án slysa á fólki en eitthvað tjón varð á ökutækjum.

Mikið um óhöpp í umferðinni - Skessuhorn