Fréttir

Veður versnar í kvöld og enn meira á morgun

Gul viðvörun er í gildi fyrir vestanvert landið til hádegis í dag og síðan aftur eftir klukkan 19 í kvöld. Á morgun, miðvikudag versnar veður til muna. Þá tekur við appelsínugul viðvörun eftir hádegi og stendur fram eftir degi á fimmtudaginn. Spáð er sunnan- og suðvestan 23-30 m/s og hviður yfir 35 m/s, en heldur hægari um tíma um kvöldið. Rigning, talsverð um tíma. Foktjón líklegt og útlit fyrir vatnavexti og raskanir á samgöngum.

Vegagerðin vill benda á að með ört versnandi veðri um miðjan dag á morgun er reiknað með að um vestanvert landið verði hríð um tíma á fjallvegum. Varasöm hálka með hvössum vindi um leið og hlýnar og hlánar, einnig á láglendi. Talsverður vatnsagi verður á götum í þéttbýli að auki.