Fréttir
Heiðarborg. Myndin er úr safni, tekin áður en framvæmdir hófust við nýja íþróttahúsið.

Íþróttamiðstöðin lokuð vegna vatnstjóns

Íþróttamiðstöðin Heiðarborg í Hvalfjarðarsveit verður lokuð, að minnsta kosti til og með miðvikudagsins 5. febrúar, vegna vatnstjóns sem þar uppgötvaðist á laugardaginn. Jökull Helgason, deildarstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Hvalfjarðarsveitar tjáði blaðamanni að vonir standi til að húsið verði komið aftur í notkun í vikunni. „Það var búið að rjúfa þakið af tengibyggingu vegna framkvæmda við nýtt íþróttahús og það gerðist nú í óveðrinu að alltof mikið vatn kemst inn og við það eyðileggst rafmagnstafla en einnig urðu skemmdir á búnaði. Ekki er búið að meta skemmdir á húsinu sjálfu á þessari stundu en það er enn rafmagnslaust,“ sagði Jökull í samtali við Skessuhorn.

Íþróttamiðstöðin lokuð vegna vatnstjóns - Skessuhorn