
Stungið í gegnum snjóflóðið í Ólafsvíkurenni
Veður er nú óðum að ganga niður á Snæfellsnesi eftir hávaða suðaustan rok og asahláku síðasta sólarhringinn. Nú eru starfsmenn TS vélaleigu að gera fært í gegnum snjóflóðin sem féllu í Ólafsvíkurenni undir kvöld í gær. Í gærkvöldi var flóðið um sex metra hátt en hjaðnaði í leysingunum í nótt og er nú um fjórir metrar. Lengd þess var um 100 metrar, náði yfir veginn og út í sjó. Engan sakaði þegar snjóflóðin féllu, enda var vegurinn þá auglýstur ófær vegna hvassviðris. Búist er við að hægt verði að hleypa umferð á veginn fyrir Ólafsvíkurenni innan skamms. Alfons Finnsson fréttaritari Skessuhorns tók meðfylgjandi mynd nú rétt í þessu.
