
Lýstu yfir óvissustigi vegna ofanflóðahættu
Í gærkvöldi lýsti Veðurstofan yfir óvissuástandi vegna ofanflóðahætta víða um land, þar með talið á Vesturlandi. Það var gert í kjölfar þess að búist var við mikilli úrkomu í gærkvöldi og nótt samhliða hlýindum. Tvö vot snjóflóð höfðu í gærkvöldi fallið yfir veginn í Ólafsvíkurenni, eins og fyrst var greint frá á vef Skessuhorns. „Á svæðinu er einhver snjór, þó ekki í miklu magni samkvæmt heimildum. Þrátt fyrir það má gera ráð fyrir leysingu og talsverðum vatnavöxtum vegna úrkomunnar,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar í gærkvöldi. Atvinnuhús undir Ólafsvíkurenni voru rýmd á meðan veðrið gekk yfir. Þá voru vegir á norðanverðu Snæfellsnesi lokaðir vegna snjóflóðahættu, ófærðar og hvassviðris. Notendur á heilsugæslunni á Ólafsvík voru beðnir um að dvelja ekki í þeim hluta hússins sem vísar upp í fjallið.
Gríðarlega mikil snjóbráð var í gærkvöldi og nótt og má búast við að mikið af þeim snjó sem var jafnt á láglendi sem til fjalla hafi tekið upp. Óvissustig er þó enn í gildi samkvæmt vef Veðurstofunnar. Upp úr hádegi í dag á að kólna til fjalla, en á láglendi helst hitinn yfir frostmarki.